Fjarbúðin

Sunday, April 01, 2007

Ég ætla aldrei að blogga hér aftur!

Ég er komin með nóg af þessu fúla kerfi og er flutt yfir á blog.central.is/undralandid

Vonandi flytur minn yndislegi eiginmaður með mér ;o)

Það mátti ekki halda nafninu hamingjusamlegagift því þar er 15 stafir hámark!

Kveðja
Ósk

Thursday, February 15, 2007


Líf

Ég er á leið norður í Mývatnssveit á morgun til þess að vera þar yfir helgina. Á óskalistanum frá Ósk er m.a. plantan Líf sem er úti í eldhúsglugga. Ætli ég geti tekið hana með í bakpokanum í flugið? Hún mun a.m.k. ekki lifa af það að vera kastað til í ferðatösku af harðhentum hlaðmönnum á flugvellinum.

Uppfært (23:43)

Mér sýnist Líf ekki vera þess leg að hún þoli flutning norður. Hún er samt enn á lífi og hressist vonandi eftir vatnssopann áðan.

Monday, February 05, 2007


Áætlun „Mýflug“ heppnaðist fullkomlega!

Áætlunin heppnaðist fullkomlega á föstudaginn. Ég fór í flug rúmlega tíu, borðaði hádegismat á Akureyri og var kominn með rútunni kl. hálfþrjú á föstudaginn.

Sumir voru pínkulítið undrandi þegar ég hringdi dyrabjöllunni á Helluhrauni 7a.

Föstudagurinn fór að miklu leyti í að leggja sig. Við fórum svo í jarðböðin og elduðum þríréttaða máltíð á laugardagskvöldið. Horfðum á LA Story og Confessions of a Dangerous Mind sem eru báðar ansi góðar (hvor á sinn hátt) og auðvitað horfðum við á Eurovision. Lagið hans Dr. Gunna er ansi gott og sama má segja um lagið sem kom á eftir því.

Nú tekur við vinnutörn fram að næstu ferð norður sem verður á föstudaginn í næstu viku.

Friday, February 02, 2007


Nótt á VR2 2

[Varúð: Nám + þreytusvimi]

Vúhú! Mér tókst að leysa burðarbitaverkefnið núna rétt fyrir kl. 3. Húrra fyrir verkfræðingunum sem settu upp síðuna http://www.soft4structures.com (markhópur=Eyrún)!

Röltið út í 10-11 hefur greinilega borið ávöxt. Nú hef ég engu að kvíða þótt skýrsluskil séu á mánudaginn. Á samt enn eftir heimadæmi o.fl. áður en ég fer að sofa.

Enn eru nokkrar hræður í húsinu þegar ég fer að pakka niður. Það er kveikt ljós á bókasafni meistaranema. Þar eru augljóslega einhverjir sem ætla að ná því að útskrifast í febrúar.

Nótt á VR2

[Varúð: Svefngalsi]

Nú er klukkan farin að ganga tvö um nótt hér á VR2. Auk mín er hér reitingur af fólki, meirihlutinn af því er að undirbúa Hönnunarkeppni vélaverkfræðinema sem fram fer kl. eitt á morgun. Það er reyndar útlit fyrir að ég missi af keppninni.

Annars er gott að vera hérna í ró og næði. Ég er búinn að breiða vel úr mér hérna í tölvuverinu og tel 13 mismunandi blaðabunka í kringum mig á nálægum tölvum og stólum. Ég get hvenær sem er rölt út í 10-11 sem er opin allan sólarhringinn og náð mér í gotterí. Ég henti Brakpokanum sem ég keypti í dag því hann var ekki nógu góður á bragðið (og jú, ég viðurkenni að hafa heyrt rödd Sölva Fannars einkaþjálfara í hausnum á mér: „Þú myndir aldrei setja svona rusl á tankinn á fína bílnum þínum“ - og ég sem á ekki einu sinni bíl). Hef haldið mig við ávextina hingað til en hver veit hvað gerist þegar líða tekur á nóttina og verkefnið í reiknilegri aflfræði fer að taka á sig mynd.

Monday, January 22, 2007


Örblogg

Sviðið: Kona með þrjá strákpatta að taka strætó á Lækjartorgi í hádeginu á laugardegi.

Strákur: Mamma, sjáðu geislasverðið mitt!

Fjölskyldan stígur upp í vagninn.

Þremur sekúndum síðar flýgur grænn stútur af brotinni bjórflösku út um afturdyrnar á vagninum.

Hugleiðing um upphaf sjö ára ógæfu

Ég lenti í því á laugardagsnótt að rekast utan í stóran spegil sem hafði verið reistur upp á rönd við vegg. Spegillinn valt um koll og brotnaði í þúsund mola sem dreifðust yfir baðherbergisgólfið.

Í gær, sunnudag, rann svo upp dagur ógæfunnar. Ísland tapaði, Manchester United tapaði, liðið mitt tapaði 20-8 í innanhússboltanum og ég komst að því að heima hjá mér var spóla sem átti að skila út á vídeóleigu fyrir viku. Til þess að kóróna þetta allt saman þá þurfti ég að skera mig á glerbrotunum þegar ég hreinsaði þau upp.

Í gær var einnig dagurinn þar sem konan mín fór norður í land og munu líða fjórar vikur þangað til að ég sé hana næst.

Svona væri hægt að líta á málin.

Þá væri ég hins vegar að horfa framhjá ýmsum staðreyndum. Ég hef t.d. ekkert fylgst með handboltamótinu og þótt ég fylgi M.Utd. að málum þá er ég það illa inni í leik liðsins að ég veit varla hverjir eru að spila fyrir þá. Ég fann þúsund króna seðil í vasanum í gær sem ég lét vinkonu okkar hafa og hún sá um að fara með spóluna út á leigu og tók á sig aukakrók til þess að skutlast eftir mér þegar ég skilaði bíl sem ég var með í láni.

Skurðurinn eftir glerbrotin sést varla lengur og ég má telja mig býsna heppinn að hafa sloppið svo vel eftir að hafa tiplað nokkrum sinnum berfættur um baðherbergið áður en ég hreinsaði upp glerbrotin berhentur.

Friday, January 19, 2007

Rembingskoss í kennslustund

Ég vissi ekki alveg hvaðan á mig stóð veðrið þegar stelpa sem ég kannaðist ekki við kom arkandi í lok kennslustundar í dag og smellti mig rembingskossi á kinnina!

Eftir þessa óvanalegu lífsreynslu náði ég að veiða það upp úr stelpunum á fremsta bekk að bekkjarsystir þeirra væri að safna áheitum fyrir UNICEF í verkefninu „Gleði til góðgerða“. Hún gekkst undir það að kyssa alla kennara 6. M í dag og var ég engin undantekning þótt ég kenni stjörnufræðihluta bekkjarins en hún sé í erfðafræði.

Tuesday, January 09, 2007

Það góða við að búa ein er að dansa eins og brjálæðingur og sleppa svo sturtu!

Ef einhverjir koma í heimsókn skal ég samt lofa að fara í sturtu!

Ekki samt koma í heimsókn 12. -21. janúar því þá verð ég í Reykjavík, megið auðvitað koma í heimsókn á Nesveginn samt ;o)